Um kjararáð

Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Í þeim hópi eru alþingismenn, ráðherrar, dómarar, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, prestar, prófastar, saksóknarar, sendiherrar og forstöðumenn ríkisstofnana. Kjararáð ákveður einnig launakjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu þeirra. Nánar er kveðið á um starfsemi ráðsins í  

Skipulag

Kjararáð er skipað fimm ráðsmönnum og fimm til vara. Þrír eru kosnir af Alþingi, Hæstiréttur skipar einn og fjármála- og efnahagsráðherra einn. Ráðið kýs sér sjálft formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Kjararáðsmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn.

Kjararáð starfar í tvennu lagi, fullskipað og þriggja manna. Þriggja manna kjararáð er skipað þannig að formaður velur með sér tvo úr hópi aðalmanna og eftir atvikum varamanna. Þess skal gætt að ávallt sé í þessum þriggja manna hópi einn ráðsmaður skipaður af fjármála- og efnahagsráðherra og annar kosinn af Alþingi.

Verkefni fullskipaðs kjararáðs er að ákveða laun forseta Íslands, alþingismanna, ráðherra og dómara, svo og að skera úr um það til hverra annarra ákvörðun ráðsins um laun og starfskjör skuli ná. 

Kjararáð hefur sett sér starfsreglur þar sem segir meðal annars að ákvarðanir um almennar launahækkanir til þeirra sem heyra undir ráðið skuli teknar af fullskipuðu kjararáði, auk stefnumarkandi ákvarðana. 

Þriggja manna kjararáð ákveður laun annarra sem undir valdsvið ráðsins heyra.

Úrskurðir kjararáðs eru endanlegir á stjórnsýslustigi.

Kjararáð fundar reglulega eða að jafnaði einu sinni í viku.

Meðferð mála hjá kjararáði

Meðferð mála í kjararáði sætir reglum laga um kjararáð. Þannig skal kjararáð gefa talsmönnum þeirra sem falla undir úrskurðarvald þess, fjármála- og efnahagsráðuneyti og fagráðuneyti  kost á að leggja fram skriflegar eða munnlegar greinargerðir vegna þeirra mála sem til úrlausnar eru. Viðkomandi starfsmanni er einnig gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Mál sem eru til úrlausnar eru af ýmsum toga og misjöfn að umfangi og skal kjararáð sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en til ákvörðunar kemur. Ekki er að finna sérstök ákvæði í lögum um kjararáð um það innan hvaða tímamarka ráðið skuli ljúka afgreiðslu mála sem því berast.

Skrifstofa kjararáðs

Skrifstofa kjararáðs er að Hverfisgötu 6a í Reykjavík. Skrifstofustjóri er Anna Hermannsdóttir lögfræðingur.

Skrifstofa kjararáðs - [email protected]

Anna Hermannsdóttir - [email protected]